Spretta, undur og hugarflug
Sýning í Safnasafni í tilefni 100 ára afmæli gróðurreitsins við Safnahúsið.
Tré er afar fornt og sterkt tákn í mörgum menningarsamfélögum. Talað er um lífsins tré þar sem hringrás lífs og dauða myndgerist í búningi árstíðanna, tréð laufgast á vorin og ber ávexti, fellir síðan laufin, leggst í dvala, deyr, en lifnar aftur við næsta vor. Þá þekkjum við vel söguna um Edens lundinn og skilningstréð og hvernig Buddha uppljómaðist undir fíkjutré.
Það er eitthvað sérstakt við trén og skógana, við finnum það öll. Í skóginum eiga margir athvarf og skjól; dýr, jurtir og sveppir. Í þessu sérstaka samfélagi eiga sér þó fleiri bústaði og skjól. Ein glöggskyggn kona sem sér meira en við flest segir að í hverju tré og hverri plöntu búi vera sem hægt sé að komast í samband við. Þessi vera gegnir veigamiklu hlutverki í uppvexti og viðhaldi hverrar plöntu. Í skógarlundum svífa líka ljúflingar, svifléttir álfar sem dansa hringdansa á sólríkum dögum, blómálfar sem renna sér á blöðum blóma og dvergar sem potast í sverðinum innan um sveppi og rætur.
Í tilefni af 100 ára afmæli Gróðurreitsins var markað nýtt upphaf inn í annað árhundrað með gróðursetningu “eplapars” í reitinn. Hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á íslandi, Ávöxtur, lagði til trjáplönturrnar. Gróðursetningin er hluti sýningarinnar, spretta, undur og hugarflug, sem sett var upp í Svalbarðstrandarstofu. Um er að ræða innsetningu þar sem brugðið er á leik með gömul minni garða og unaðsreita, forboðinna jurta og framhaldslífs. Innsetningin fól í sér samvinnuverkefni, verk sem unnin voru af félögum í Kvenfélagi Svalbarðsstrandar, Ungmennafélaginu Æskunni, börnum í leikskólanum Álfaborg, Valsárskóla, og öðrum íbúum Svalbarðsstrandar.
Eplaparið
Innsetning maí
Fíkjublöð
Ormurinn langi og verk íbúa Svalbarðshrepps
Ormurinn langi og árhringir
Baunagras í maí
Baunagras í júní
Baunagras í september
Innsetning í september
Innsetning í september
Hlutavelta í október: Verkin á sýningunni voru framlag íbúa Svalbarðsstrandar á hlutaveltu sem efnt var til í október sama ár. Ágóðinn af henni rann til kaupa á fleiri ávaxtapörum til gróðursetningar í Gróðurreitnum.
Börn úr Valsárskóla koma með verkin sín