Rósagarður

Sólarupprás

Verk á útisýningunni Undir Berum Himni sem fram fór í almannarýminu í Þingholtunum og Skólavörðuholtinu. Verkið var staðsett á lóð leikskólans Sólstafa á Grundarstíg 19.

Verkið er unnið út frá klippiverkum langömmu og langalangömmu minnar, Dórótheu Gísladóttur 1886-1982, Elsu Dórótheu Jónsdóttur 1840-1931, en það var þeirra leið til listsköpunar og dægradvalar. Þær notuðu þann pappír sem féll til í þá daga, innan úr sykurkössum, umslögum, eða gömul skjöl. Þetta gamla alþýðulistform er áhugavert í einfaldleika sínum og nægjusemi og vert að gefa því gaum.

Klippiverkin, sem þær kölluðu rósir, skipuðu mikilvægan sess í minni barnæsku.  Á þeim stað sem ég ólst upp var ekki boðið upp á neina dagvist eða leikskóla en gripið var til þess ráðs að kalla til langömmu mína sem tók að sér að gæta okkar systkinanna.Eitt af því sem hún lagði okkur til var að klippa út og gefa okkur rósir til að lita og skreyta eftir okkar höfði. Ég efnisgeri þessa minningu í þessum útiverkum og gef hana áfram.

Stór hluti af mínu starfi sem myndlistakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík er að taka á móti leikskólabörnum og gefa þeim innsýn inn í heim sköpunar. Mig langar til að bjóða leikskólabörnunum á Sólstöfum að koma að verkinu með litum, leik og kroti. Þau setja þannig sinn svip á verkið í leik sínum ásamt því að verkunum er valinn staður á leikskólalóðinni í samvinnu við starfsfólk leikskólans.

Sólarupprás
Sólarupprás
Sólarupprás